Lottóleikir » Vinningar í Vikinglotto
Útborgun vinninga í Vikinglotto
Miði keyptur í sölukössum
Vinningar sem eru hærri en fimm milljónir eru greiddir út fjórum vikum eftir útdrátt. Framvísa skal miða á skrifstofu Getspár/Getrauna sem sér um greiðslu.
Vinningar sem eru, 25.000 krónur eða lægri eru greiddir út á öllum sölustöðum Getspár/Getrauna gegn framvísun þátttökukvittunar.
Vinnings skal vitjað innan árs frá útdráttardegi, ellegar fellur niður réttur til hans.
Áskrift og netmiðar
Áskrifendur fá vinninga sem eru lægri en 200.000 krónur lagða beint inn á greiðslukortareikninginn sinn strax næsta virka dag eftir útdrátt.
Þeir sem versla sér staka miða á netinu fá vinninga lægri en 200.000 krónur greidda inn á spilareikninginn sinn.
Ef um hærri vinninga er að ræða er haft samband við vinningshafa.
Skipting vinninga í Vikinglotto
Fyrsti og annar vinningur er sameiginlegur með þátttökuþjóðum. Þátttökuþjóðirnar eru auk Íslands; Danmörk, Finnland, Noregur, Svíþjóð, Eistland, Lettland og Litháen. Fara 0,185 evrur af andvirði hvers miða í fyrstu tvo vinningsflokkana sem og í jöfnunarsjóð. 45% af heildarsölu, að frádregnum 0,185 evrum, fer í aðra vinningsflokka.
Verðmæti fyrstu tveggja vinningsflokkanna í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi evru á útdráttardegi. Fyrsti vinningur er fyrir 6 réttar aðaltölur og eina Víkingatölu og annar vinningur er fyrir 6 réttar aðaltölur. Tryggt er að fyrsti vinningur verður aldrei lægri en 3 milljónir evra, jafngildi um 440 milljóna króna. Einnig verður sett þak á fyrsta vinning þannig að þegar fyrsti vinningur er kominn í 25 milljónir evra (c.a. 3,6 milljarða ISK) fer umframfjárhæðin í 2. vinningsflokk í næsta útdrætti.
Víkingatala
Í hverjum útdrætti er dregin út ein Víkingatala af tölunum 1 – 5.
Skipting annarra vinningsflokka er í eftirgreindum hlutföllum:
28% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar og eina Víkingatölu
7% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar
12% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar
53% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar
Hafi enginn þátttakandi allar sex aðaltölur og Víkingatölu réttar færist vinningsfjárhæð þess flokks til næstu leikviku og kemur í hlut þeirra er fá allar sex aðaltölurnar auk Víkingatölu réttar í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar sex aðaltölur auk Víkingatölu réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þarnæstu viku o.s.frv. nema ef upphæð fyrsta vinnings fer yfir 25 milljónir evra eins og fram hefur komið. Sömu reglur gilda ef enginn þátttakandi er með sex aðaltölur réttar eða fimm aðaltölur réttar. Vinningar eru undanþegnir tekjuskatti.
Vinningslíkur
6 réttar aðaltölur og Víkingatala 1:61.357.560
6 réttar aðaltölur 1:12.271.512
5 réttar aðaltölur og Víkingatala 1:243.482
5 réttar aðaltölur 1:48.696
4 aðaltölur 1:950
3 aðaltölur 1:53
Kærur
Rísi ágreiningur varðandi framkvæmd þessarar talnagetraunar skal viðkomandi þátttakandi senda skriflega kæru sem skal hafa borist aðalskrifstofu Íslenskrar getspár fyrir kl. 16 á tuttugasta og fyrsta degi frá og með útdráttardegi að telja. Úrskurðaraðili, skipaður af dómsmálaráðuneytinu, úrskurðar um kæruna innan fimmtán daga frá því að kærufrestur rennur út.
Að öðru leyti vísast til reglugerðar dómsmálaráðuneytisins um talnagetraunir Íslenskrar getspár.
Síðast breytt 15. maí 2023