Lottóleikir » Vann 35,9 milljónir

Til baka í listaVann 35,9 milljónir
Lottó-fréttir

Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir starfsmenn Getspár að hringja í vinningshafann í Lottó síðasta laugardag.  Hann hafði ekki hugmynd um að hafa unnið, mundi ekki hvaða tölur hann hafði valið á fimm raða miðann sem hann hafði sett í áskrift á lotto.is í september síðastliðinn.  Þegar honum var tjáð að á þennan miða hafi hann unnið 35,9 milljónir króna, var hann sko alls ekki að trúa því.

Það þurfti tvö símtöl til að sannfæra manninn um að þetta væri ekki gabb, hann var sannfærður um að einhver úr sínum skemmtilega vinahópi væri að plata sig.  En hann sannfærðist og það fyrsta sem hann gerði var að heimsækja konuna sína á vinnustaðinn hennar, bað hana að setjast niður og sagðist þurfa að segja henni nokkuð sem ætti eftir að breyta þeirra lífi verulega til hins betra.  Það var ekki síður erfitt að sannfæra hana og hún var varla ennþá farin að trúa þessu þegar þau hjónin komu til Getspár til að taka á móti vinningnum og spurði starfsmann Getspár enn og aftur; „ertu alveg viss um að þetta sé réttur miði?“.

Vinningurinn er þeim hjónum kærkominn, konan hefur verið slæm til heilsunnar og eiginmaðurinn búinn að vinna tvær vinnur í mörg ár til að ná endum saman.  Þau sjá nú fram á bjartari tíma og hlakka til að hafa meira á milli handanna til að njóta lífsins.