Lottóleikir » Ungur maður vann 41,4 milljónir

Til baka í listaUngur maður vann 41,4 milljónir
Lottó-fréttir

Það var pollrólegur og mjög ánægður vinningshafi sem mætti til Getspár ásamt foreldrum sínum með vinningsmiðann frá síðasta laugardegi.  Er hann með þeim yngri sem við höfum fengið í heimsókn til okkar en hann er aðeins rétt um tvítugt, háskólanemi sem býr í foreldrahúsum.

Ungi háskólaneminn heyrði auglýsingu um stóran Lottópott síðasta laugardag og hugsaði þá með sér “best að kaupa miða”.  Og þar sem hann átti leið um Hafnarfjörð ákvað hann að koma við í Fjarðarkaupum og klára málið, með von um vinning. 

Það var svo á laugardagskvöldið, okkar maður háttaður og mundi þá eftir Lottóinu, fór inn á lotto.is, skoðaði tölurnar og sá einhverjar kunnuglegar.  Miðinn var hins vegar úti í bíl og hann nennti alls ekki að klæða sig og sækja miðann, það gerði hann hins vegar um leið og hann vaknaði daginn eftir og grunurinn reyndist réttur, hann hélt á vinningsmiða sem á var vinningur upp á rúmlega 41,4 milljónir króna.

Hann ætlar að gefa sér góðan tíma til að ákveða næstu skref en ákvað þó að byrja á því að leyfa bílnum sínum að fara í gegnum alþrif svona fyrir jólin.

Starfsfólk Getspár óskar vinningshafanum innilega til hamingju með þennan glæsilega vinning.