Lottóleikir » Fyrirhugaðar breytingar á Lottó leiknum

Til baka í listaFyrirhugaðar breytingar á Lottó leiknum
Lottó-fréttir

Íslensk getspá hefur óskað eftir við dómsmálaráðuneytið að gera breytingar á Lottó leiknum sem taka gildi 2. júlí næstkomandi, en Lottó er vinsælasti happdrættisleikurinn á Íslandi. Breytingarnar  eru þrenns konar og fela í sér að í fyrsta lagi þá fjölgar tölunum um tvær, úr 40 í 42 og verður leikurinn því Lottó 5/42 í stað Lottó 5/40. Í öðru lagi  verður einum vinningsflokki bætt við sem er vinningur fyrir 3 réttar tölur og bónustölu og í þriðja lagi er óskað eftir verðhækkun.

Íslensk getspá hóf rekstur á Lottó 5/32 árið 1986. Leiknum var breytt árið 1988 í 5/38 og hélst hann óbreyttur í 20 ár eða til ársins 2008 þegar honum var breytt í Lottó 5/40. Nú, fjórtán árum síðar, er óskað eftir breytingu á leiknum í 5/42.  Breytingarnar fylgja mannfjöldaþróun á Íslandi,  árið 1986 var íbúafjöldi 242 þúsund manns en í ár er hann um 376 þúsund manns.

Óskað er eftir breytingu á vinningsflokkum þar sem einum vinningsflokki er bætt við. Eftir breytingu verða vinningsflokkar í Lottó 5/42 eftirfarandi:
Fimm réttar aðaltölur
Fjórar réttar aðaltölur og bónustala
Fjórar réttar aðaltölur
Þrjár réttar aðaltölur og bónustala - sem er nýr vinningsflokkur
Þrjár réttar aðaltölur
Tvær réttar aðaltölur og bónustala

Jafnframt er óskað eftir hækkun á verði hverrar lottóraðar úr 130 krónum röðin í 150 krónur. Síðast var verð á lottóröð hækkað árið 2013 eða fyrir átta árum síðan.

Íslensk getspá er í eigu Íþróttasambands Íslands, Öryrkjabandalags Íslands og Ungmennafélags Íslands og rennur allur hagnaður af starfsemi fyrirtækisins til þessara aðila.