Lottóleikir » 77,4 milljóna vinningshafi fannst eftir krókaleiðum

Til baka í lista77,4 milljóna vinningshafi fannst eftir krókaleiðum
Lottó-fréttir

Var með rangt netfang og símanúmer skráð í Lottó-appið

Íslensk getspá þurfti að hafa dálítið fyrir því að finna heppna Lottóspilarann sem vann fimmfalda pottinn 10. september síðastliðinn. Vinningshafinn hafði keypt lukkutölurnar í Lottó-appinu og var einn með þær allar réttar. Hins vegar hafði viðkomandi láðst að uppfæra upplýsingar um nýtt símanúmer og netfang í appinu. Þess vegna var ekki unnt að hafa samband, eins og jafnan er gert með alla stóra vinninga, þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta og sjö skilaboð í talhólf náðist ekki í vinningshafann.

Var því næst prófað að senda skilaboð á helstu viðskiptabanka til að kanna hvort viðkomandi væri í hópi viðskiptavina þeirra. Fór því að lokum svo að starfsfólk eins bankanna gat haft upp á týnda vinningshafanum og vegna persónuverndarsjónarmiða beðið hann um að setja sig í samband við Íslenska getspá. 

Vinningshafinn reyndist rúmlega fertugur karlmaður sem sagði vinninginn koma sér einstaklega vel enda íbúðakaup efst í huga hans. Rétt er að geta þess að sá heppni hefur nú þegar uppfært upplýsingar um símanúmer og netfang í appinu og er ekki úr vegi að minna aðra Lottóspilara á að gera slíkt hið sama svo hægt sé að hafa strax samband þegar þeir vinna þann stóra!

Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir öryrkja, íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af sölu Lottó.