Lottóleikir » Tók íbúðina úr sölu þótt mamman tryði ekki á Lottóvinninginn

Til baka í listaTók íbúðina úr sölu þótt mamman tryði ekki á Lottóvinninginn
Lottó-fréttir

Karlmaður um fertugt beið ekki boðanna með að taka íbúðina sína úr sölu eftir að hafa verið einn með allar tölur réttar í Lottó síðastliðinn laugardag. Afborganir hans höfðu hækkað allnokkuð síðustu mánuði og þess vegna var vinningur upp á 32 og hálfa milljón vel þeginn til að geta skipulagt stöðuna upp á nýtt með fjármálaráðgjöf sem öll þau sem hreppa stóra vinninga hjá Íslenskri getspá stendur til boða. 

Auk þess að búa áfram í íbúðinni með lægri greiðslubyrði segir vinningshafinn að dóttir sín, sem er við það að taka bílpróf, fái að njóta vinningsins líka en bætir því við að kostuleg viðbrögð foreldra hans hafi verið ákveðinn aukavinningur. Stóreflis bros birtist og fraus á andliti föðurins en móðirinn neitaði staðfastlega að trúa góðu fréttunum og sagði bara „Þegiðu! Þegiðu! Þú lýgur þessu! Þegiðu!“ 

Vinningshafinn heppni keypti miðann á lotto.is og eins og hann gerir venjulega þá lét hann sjálfvalið finna tölur fyrir sig þrisvar sinnum áður en hann keypti miðann. Sú aðferð borgaði sig svo sannarlega hjá honum um síðustu helgi.

Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk,
sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.