Lottóleikir » Fjölþjóðlega Víkingalottóið breytist

Til baka í listaFjölþjóðlega Víkingalottóið breytist
Vikinglotto-fréttir

Samkvæmt sameiginlegri ákvörðun aðildarþjóða Víkingalottós verða gerðar breytingar til að gera leikinn einfaldari og skemmtilegri frá og með deginum í dag, 18. maí. Áfram verða dregnar út sex aðaltölur af 48 en ofurtalan og bónustölurnar víkja fyrir svokallaðri Víkingatölu. Þær eru frá einum og upp í átta og er ein Víkingatala valin með hverri röð.

Ofurpotturinn heyrir því sögunni til en fyrsti vinningur, fyrir sex réttar tölur og Víkingatölu, hækkar í grunninn og ætti hann að ganga oftar út en áður. Þá er tryggt að fyrsti vinningur verði aldrei lægri en 3 milljónir evra, jafngildi um 340 milljóna króna. Einnig verða tveir hæstu vinningsflokkarnir sameiginlegir milli landa, í stað eins sameiginlegs vinningsflokks áður en þak verður á fyrsta vinningi. Það virkar þannig að þegar hann er kominn í 35 milljónir evra (u.þ.b. 4 milljarða ISK) fer umframfjárhæðin í 2. vinningsflokk í næsta útdrætti. Þá verða nú einnig veittir vinningar fyrir þrjár réttar tölur sem mun fjölga ánægðum vinningshöfum í hverri viku. Loks verður gerð sú veigamikla breyting að vinningshlutfallið hækkar úr 40% í 45% þannig að heildarfjárhæð vinninga hækkar. Ísland mun áfram bjóða upp á eitt lægsta verðið meðal aðildarþjóðanna fyrir spilun í Víkingalottóinu en hver röð hækkar um 20 kr. og kostar nú 100 kr. Jóker mun áfram kosta 200 krónur.