Getraunaleikir » Getraunakerfi

Getraunakerfi

Hvað eru getraunakerfi?

Á getraunaseðlinum eru þrjár tegundir getraunakerfa: opinn seðill, sparnaðarkerfi og útgangskerfi.  Opinn seðill er getraunakerfi sem gefur alltaf jafn marga leiki rétta og merkin sem rétt er getið um á seðlinum.  Sparnaðarkerfi spara raðir, en möguleikar á vinningum minnka hlutfallslega við hverja röð sem spöruð er.  Sparnaðarkefin veita þó nokkra möguleika á vinningum.  Öll kerfin á getraunaseðlinum tryggja að tipparinn fær að minnsta kosti 11 rétta á eina röð ef öll merkin koma upp og sem kerfin tryggja alltaf 12 rétta.  Miðað er við að leikirnir á getraunaseðlinum séu þrettán.

Munurinn á opnum seðli og sparnaðarkerfum er sá að sparnaðarkerfin gefa tækifæri á að setja tvö eða þrjú merki á fleiri leiki en opinn seðill fyrir sömu upphæð.  Á móti kemur að líkurnar á toppvinningi lækka.

Útgangsmerkjakerfi spara raðir eins og sparnaðarkerfin en tipparinn eykur möguleika á vinningi með því að tippa eitt útgangsmerki á þá leiki sem eru þrítryggðir.  Það merki hefur meira vægi en hin tvö merkin á kerfinu.  Yfirleitt fara vinningsmöguleiarnir eftir fjölda þeirra útgangsmerkja sem rétt er getið um.

Opinn seðill

Öll getraunakerfi eru byggð út frá opnum seðli sem eru bein margföldunarkerfi.  Ef tippari er viss um alla þrettán leikina á getraunaseðlinum þarf hann ekki nema eina röð til að fá þrettán rétta.  Ef hann er viss um tólf leiki en einn er óviss þarf hann 3 raðir (1*3), því einn leikur verður að vera þrítryggður.  Þannig er dæmið reiknað koll af kolli.  Tveir þrítryggðir leikir eru 9 raðir (3*3), þrír þrítryggðir leikir 27 raðir (3*3*3), fjórir þrítryggðir leikir eru 81 röð (3*3*3*3).  Til að tryggja sig fyrir óvæntum úrslitum á öllum leikjum þarf að þrítryggja alla leikina sem eru (3*3*3*3*3*3*3*3*3*3*3*3*3)=1.594.323 raðir.

Hið sama gildir um tvítryggða leiki.  Einn tvítryggður leikur er 2 raðir (1*2), tveir tvítryggðir leikir eru fjórar raðir (2*2), þrír tvítryggðir leikir eru átta raðir (2*2*2), fjórir tvítryggðir leikir eru 16 raðir (2*2*2*2) og allir þrettán leikirnir tvítryggðir eru (2*2*2*2*2*2*2*2*2*2*2*2*2)=8.192 raðir.

Hægt er að blanda saman tvítryggðum leikjum og þrítryggðum leikjum og eru leikir þá ýmisst margfaldaðir með tveimur eða þremur.  Dæmi um slíka markföldun eru 216 raðir sem eru (2*2*2*3*3*3)=216 raðir.

Tipparar þurfa að vara sig á því hve skjótt raðir margfaldast.  Til að byrja með er ekki um margar raðir að ræða en strax og komið er upp fyrir eitt hundrað raðir tvö-og þrefaldast raðirnar og eftir það er um stórar upphæðir að ræða.  Eitt þúsund raðir eru fljótar að verða að þrjú þúsund röðum.  Það er því nauðsynlegt að margfalda í huganum, á blaði eða með vasarafreikni svo að ekki komi upp neinn misskilningur hvað varðar raðafjölda og kostnað.

Sparnaðarkerfi

Sparnaðarkerfin á getraunaseðlinum eru níu.  Þau gefa misjafnlega sterkar líkur á vinningi og misjafnlega mörg merki á leikina, enda eru kerfin misjöfn að vöxtum.  Það sem er þeim sameiginlegt er að þau spara raðir.  Öll getraunakerfi eru byggð á opnum seðlum, sem eru 100% þéttir, gefa alltaf jafn marga rétta og kerfið sýnir.  Margir þessara opnu seðla eru það margar raðir að tipparinn hefur ekki efni á að tippa á allar raðirnar.  Hann getur þá gripið til þess ráðs að setja jafnmörg merki á leikina á seðlinum, en minnka hlutfallslega líkurnar á toppvinningi.  Á þrettán leikja seðli tryggja fjögur sparnaðarkerfanna tólf rétta, en fimm tryggja ellefu rétta, ef getið er rétt um föstu leikina svo og leikina með tveimur merkjum.  Sparnaðarkerfin gefa mismunandi miklar líkur á þrettán réttum, frá 1.6% upp í 12,5%.  Sem dæmi um sparnað má nefna að ef sett eru tvö merki á tíu leiki, en merki á þrjá leiki eru það 1.024 raðir.  Þetta kerfi er hægt að minnka kerfisbundið, en þó halda tveimur merkjum á tíu leikjum.  Ef helmingur raðanna (512 raðir) eru teknar burt eru 50% líkur á þrettán réttum, enn alltaf annars tólf réttir. 512/1.024=50%  Ef teknar eru burt 768 raðir (75% raðanna) eru 256 raðir eftir og þá 25% líkur á þrettán réttum en annars alltaf tólf réttir. 256/1.024=25%   Ef teknar eru burt 896 raðir (87,5% raðanna) eru 128 raðir eftir og líkurnar á þrettán réttum komnar niður í 12,5%, en annars alltaf tólf réttir. 128/1.024=12,5%  Þannig eru öll sparnaðarkerfi byggð upp.
 

Leikir með
3 merkjum

Leikir með
2 merkjum

Fjöldi raða

Ef öll merkin eru rétt á
13 leikja seðli er tryggingin

3 3 24 12 réttir
7 0 36 11 réttir
6 0 54 11 réttir
0 10 128 12 réttir
4 4 144 12 réttir
8 0 162 11 réttir
5 5 288 11 réttir
6 2 324 12 réttir
7 2 486 11 réttir


Fyrsta talan merkir fjölda leikja með þremur merkjum, næsta tala merkir fjölda leikja með tveimur merkjum og þriðja talan merkir fjölda raðanna og síðasta talan segir til um lágmarkslíkur á vinningi og er þá miðað við þrettán leiki á getraunaseðlinum.

Þannig merkir sparnaðarkerfið 3-3-24 að þrír leikir eru með þremur merkjum, þrír leikir með tveimur merkjum og kerfið er 24 raðir.  Ef öll merkin eru rétt á kerfinu tryggir það lágmark eina röð með 12 rétta.

Ef grunur er á því að vinningur sé á getraunaseðlinum sakar ekki að skella honum í sölukassa og fá úr því skorið.  Það getur fært þér óvæntan glaðning.

Sparnaðarkerfi spara raðir en gefa þó góða möguleika á vinningi fyrir lítið fé. Sparnaðarkerfin tryggja alltaf lágmarksvinning ef öll merkin sem getið er um koma á seðilinn.  Öll sparnaðarkerfin á getraunaseðlinum tryggja lágmark 11 rétta á þrettán leikja seðli, ef rétt er getið til um föstu leikina og leikina með tveimur merkjum.

Sparnaðarkerfin S 3-3-24, S 0-10-128, S 4-4-144 og S 6-2-324 gefa ávallt 12 rétta ef réttu merkin eru sett á kerfin.

Lítum ögn nánar á sparnaðarkerfin sem eru á getraunaseðlinum.  Þar er til dæmis kerfið S 7-0-36.  Bókstafurinn S segir til um að kerfið sé sparnaðarkerfi, fyrsta talan segir til um fjölda þrítryggðra leikja og næsta tala segir til um fjölda tvítryggðra leikja. Síðasta talan táknar ávallt raðafjöldann.  Þetta kerfi er því sparnaðarkerfi þar sem að sjö leikir eru með þremur merkjum, enginn leikur með tveimur merkjum og kerfið er 36 raðir.  Ef við margföldum saman saman þrítryggðu leikina sjö á þessu kerfi sést að það þarf 2.187 raðir til að vera alltaf viss um að allir leikirnir þrettán séu réttir.  Þá er miðað við að rétt sé getið um föstu leikina sex. Það er mikill munur á 36 röðum og 2.187 röðum, en kerfisfræðingum hefur tekist að minnka þetta opna kerfi 7-0-2.187 kerfi í S 7-0-36 með þeim árangri að tipparinn nær alltaf að minnsta kosti einni röð með ellefu leikjum réttum ef öll merkin koma upp á kerfinu.  Auðvitað er alltaf möguleiki á því að fá 12 rétta(23.0%) eða 13 rétta (1,6%)

Útgangsmerkjakerfi

Útgangsmerkjakerfi spara raðir eins og sparnaðarkerfi.  Með því að nota útgangsmerki á þrítryggðu leikina eykur tipparinn möguleikana á því að ná vinningi. Yfirleitt aukast líkur á toppvinningi eftir fjölda útgangsmerkja, en þó ekki alltaf. Útgangsmerki hefur meira vægi en hin tvö merkin.  Í stað þess að öll merkin hafi sama gildi, kemur þetta eina útgangsmerki oftar fyrir en hin tvö merkin. 

Útgangsmerki tryggja árangur í samræmi við rétt tippuð útgangsmerki.  Dæmi er hér í næsta dálki, þar sem tipparinn er nokkuð viss um að annar af tveimur leikjum muni enda með heimasigri, jafnvel báðir.

Athugið að auðvitað má nota hvaða útgangsmerki sem er, 1 fyrir heimasigur, X fyrir jafntefli eða 2 fyrir útisigur.  Í kerfistöflunum er útgangsmerki þó alltaf táknað með 1 eða heimasigur.

Hér að neðan eru sýnd dæmi um útgangsmerki á tveimur leikjum.  Sýnd eru dæmi um öll merkin 1, X og 2.  Í flestum tilvikum þyrfti 3*3 raðir = 9 til að tryggja slíka leiki en með því að nota útgangsmerki á báða leikina má komast af með að nota 5 raðir í stað 9 raða.
 

1 er notaður sem Ú-merki X er notaður sem Ú-merki 2 er notaður sem Ú-merki
1 1 1 X 2
1 X 2 1 1
X X X 1 2
X 1 2 X X
2 2 2 X 1
2 X 1 2 2

Þarna sést að ef annar eða báðir leikirnir enda sem heimasigur eru þeir báðir réttir.

Þarna sést að ef annar eða báðir leikirnir enda sem jafntefli eru þeir báðir réttir.

Þarna sést að ef annar eða báðir leikirnir enda sem útisigur eru þeir báðir réttir.

 

Hér fyrir neðan kemur síðan dæmi um það þegar alveg er sama hvernig úrslitin eru, tveir leikjanna eru alltaf réttir.  Munurinn er sá að í dæmunum með útgangsmerkjunum eru raðirnar fimm, en í margföldunardæminu hér fyrir neðan eru raðirnar níu.

1 1 1 X X X 2 2 2
1 X 2 1 X 2 1 X 2

Í þessu dæmi sést að alveg er sama hver úrslit leikjanna verða, rétt er getið til um báða leikina.  Þeir eru báðir stærðfræðilega þrítryggðir (100% þéttir), en þá sparast engar raðir.

Dæmin hér að ofan má einnig nota með fleiri leikjum.  Til dæmis þegar öruggt þykir að tveir af þremur leikjum endi með heimasigri.

1 er notaður sem Ú merki

1 1 1 1 1 X 2
1 1 1 X 2 1 1
1 X 2 1 1 1 1

Þarna sést að ef tveir eða jafnvel allir þrír leikirnir enda með heimasigri eru þeir allir réttir.  Ef þessir þrír leikir væru stærðfræðilega þrítryggðir (100% þéttir) þyrfti 27 raðir (3*3*3).  Þarna hafa því sparast 20 raðir á þremur leikjum með því að nota útgangsmerki.

Útgangsmerkjakerfin á getraunaseðlinum eru öll mjög sterk.  Ef tipparinn nær að koma réttum merkjum á kerfin eru miklar líkur á vinningi og töluverðar líkur á þrettán réttum leikjum.

Við ítrekum að í öllum dæmum hér fyrir ofan er 1 notað sem útgangsmerki en að sjálfsögðu má nota X eða 2 í staðin.