Getraunaleikir » Sparnaðarkerfi

Sparnaðarkerfi

Sparnaðarkerfin á getraunaseðlinum eru níu.  Þau gefa misjafnlega sterkar líkur á vinningi og misjafnlega mörg merki á leikina, enda eru kerfin misjöfn að vöxtum.  Það sem er þeim sameiginlegt er að þau spara raðir.  Öll getraunakerfi eru byggð á opnum seðlum, sem eru 100% þéttir, gefa alltaf jafn marga rétta og kerfið sýnir.  Margir þessara opnu seðla eru það margar raðir að tipparinn hefur ekki efni á að tippa á allar raðirnar.  Hann getur þá gripið til þess ráðs að setja jafnmörg merki á leikina á seðlinum, en minnka hlutfallslega líkurnar á toppvinningi.  Á þrettán leikja seðli tryggja fjögur sparnaðarkerfanna tólf rétta, en fimm tryggja ellefu rétta, ef getið er rétt um föstu leikina svo og leikina með tveimur merkjum.  Sparnaðarkerfin gefa mismunandi miklar líkur á þrettán réttum, frá 1.6% upp í 12,5%.  Sem dæmi um sparnað má nefna að ef sett eru tvö merki á tíu leiki og eitt merki á þrjá leiki eru það 1.024 raðir.  Þetta kerfi er hægt að minnka kerfisbundið, en þó halda tveimur merkjum á tíu leikjum.  Ef helmingur raðanna (512 raðir) eru teknar burt eru 50% líkur á þrettán réttum, enn alltaf annars tólf réttir. 512/1.024=50%  Ef teknar eru burt 768 raðir (75% raðanna) eru 256 raðir eftir og þá 25% líkur á þrettán réttum en annars alltaf tólf réttir. 256/1.024=25%   Ef teknar eru burt 896 raðir (87,5% raðanna) eru 128 raðir eftir og líkurnar á þrettán réttum komnar niður í 12,5%, en annars alltaf tólf réttir. 128/1.024=12,5%  Þannig eru öll sparnaðarkerfi byggð upp.

 

Leikir með
3 merkjum

Leikir með
2 merkjum

Fjöldi raða

Ef öll merkin eru rétt á
13 leikja seðli er tryggingin

3 3 24 12 réttir
7 0 36 11 réttir
6 0 54 11 réttir
0 10 128 12 réttir
4 4 144 12 réttir
8 0 162 11 réttir
5 5 288 11 réttir
6 2 324 12 réttir
7 2 486 11 réttir


Fyrsta talan merkir fjölda leikja með þremur merkjum, næsta tala merkir fjölda leikja með tveimur merkjum og þriðja talan merkir fjölda raðanna og síðasta talan segir til um lágmarkslíkur á vinningi og er þá miðað við þrettán leiki á getraunaseðlinum.

Þannig merkir sparnaðarkerfið 3-3-24 að þrír leikir eru með þremur merkjum, þrír leikir með tveimur merkjum og kerfið er 24 raðir.  Ef öll merkin eru rétt á kerfinu tryggir það lágmark eina röð með 12 rétta.

Ef grunur er á því að vinningur sé á getraunaseðlinum sakar ekki að skella honum í sölukassa og fá úr því skorið.  Það getur fært þér óvæntan glaðning.

Sparnaðarkerfi spara raðir en gefa þó góða möguleika á vinningi fyrir lítið fé. Sparnaðarkerfin tryggja alltaf lágmarksvinning ef öll merkin sem getið er um koma á seðilinn.  Öll sparnaðarkerfin á getraunaseðlinum tryggja lágmark 11 rétta á þrettán leikja seðli, ef rétt er getið til um föstu leikina og leikina með tveimur merkjum.

Sparnaðarkerfin S 3-3-24, S 0-10-128, S 4-4-144 og S 6-2-324 gefa ávallt 12 rétta ef réttu merkin eru sett á kerfin.

Lítum ögn nánar á sparnaðarkerfin sem eru á getraunaseðlinum.  Þar er til dæmis kerfið S 7-0-36.  Bókstafurinn S segir til um að kerfið sé sparnaðarkerfi, fyrsta talan segir til um fjölda þrítryggðra leikja og næsta tala segir til um fjölda tvítryggðra leikja. Síðasta talan táknar ávallt raðafjöldann.  Þetta kerfi er því sparnaðarkerfi þar sem að sjö leikir eru með þremur merkjum, enginn leikur með tveimur merkjum og kerfið er 36 raðir.  Ef við margföldum saman saman þrítryggðu leikina sjö á þessu kerfi sést að það þarf 2.187 raðir til að vera alltaf viss um að allir leikirnir þrettán séu réttir.  Þá er miðað við að rétt sé getið um föstu leikina sex. Það er mikill munur á 36 röðum og 2.187 röðum, en kerfisfræðingum hefur tekist að minnka þetta opna kerfi 7-0-2.187 kerfi í S 7-0-36 með þeim árangri að tipparinn nær alltaf að minnsta kosti einni röð með ellefu leikjum réttum ef öll merkin koma upp á kerfinu.  Auðvitað er alltaf möguleiki á því að fá 12 rétta (23.0%) eða 13 rétta (1,6%)