Saga fyrirtækjanna

 

Sögu Íslenskra getrauna má rekja allt aftur til ársins 1952 en sögu Íslenskrar getspár til ársins 1986. Árið 1999 var gerður þjónustusamningur milli Íslenskra getrauna og Íslenskrar getspár um að Íslensk getspá sjái um rekstur Íslenskra getrauna og er sá þjónustusamningur enn í gildi.

 


Saga Íslenskra getrauna

Rekstur Íslenskra getrauna hófst laugardaginn 19. apríl 1952. Á fyrstu getraunaseðlunum voru mestmegnis leikir í danskri og sænskri knattspyrnu en eftir því sem árin liðu varð enska knattspyrnan mest áberandi.

Íslenskar getraunir starfa samkvæmt lögum nr. 59/1972 frá Alþingi og veita þau Getraunum einkaleyfi á rekstri íþróttagetrauna á Íslandi.

Í dag bjóða Íslenskar getraunir upp á :

- 13 leikja "gamla góða" getraunaseðillinn með enskri knattspyrnu á veturna en sænskri á sumrin. Frá árinu 1991 höfum við verið í samvinnu við Svenska Spel í Svíþjóð með þennan seðil. Hófst 1952.

- 13 leikja getraunaseðil - Evrópuboltinn - með knattspyrnuleikjum úr helstu deildum Evrópu eins og spænsku, ítölsku, þýsku og ensku deildunum. Frá upphafi höfum við spilað þennan seðil með Svíum. Hófst 1993.

- Lengjuna, spennandi og einfaldan getraunaleik með ýmsum íþróttaviðburðum s.s. knattspyrnu, handknattleik, körfubolta, golfi, kappakstri, keilu, boxi, ísknattleik o.fl. Hófst 1995.

- Tippað í beinni, skemmtilegan leik þar sem hægt er að tippa á úrslit í kappleik á meðan á leiknum stendur. Hófst með opnunarleik HM í Þýskalandi 2006

Hagnaður af starfsemi þessara getraunaleikja rennur til íþrótta- og ungmennafélaga í landinu.

 


Saga Íslenskrar getspár

Lottóævintýrið á Íslandi hófst 22. nóvember 1986 þegar þáverandi forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands, Steingrímur Hermannsson, keypti fyrsta miðann í Lottói 5/32, sem var jafnframt fyrsta beinlínutengda lottóið í Evrópu. Með Lottói 5/32 breyttist íslenski happdrættismarkaðurinn verulega, sem fram að því hafði verið einhæfur og flokkahappdrættin allsráðandi.

Fyrsti útdrátturinn fór fram í íslenska ríkissjónvarpinu viku síðar. Viðtökur almennings voru geysilega góðar; miklu betri en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona. Frá upphafi hefur Lottóið skilað eignaraðilum sínum traustum og öruggum tekjum. Íslenska Lottóið er rekið af Íslenskri getspá, sem er í eigu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (46,67%), Öryrkjabandalags Íslands (40%) og Ungmennafélags Íslands (13,33%).

Miklar vinsældir Lottósins urðu þess fljótlega valdandi að leikformið 5/32 varð of lítið fyrir happdrættismarkaðinn. Leiknum var því breytt í 5/38 í byrjun september 1988. Við breytinguna fjölgaði yfirhlaupum og sala jókst samfara því. Samkeppnin jókst einnig gífurlega á þessum tíma, því með tilkomu Lottósins hófu önnur happdrættisfyrirtæki að líta í kringum sig eftir nýjungum og skafmiðahappdrætti og ýmsir sjónvarpsleikir litu dagsins ljós. Árið 2008 var aftur ákveðið að breyta leiknum í Lottó 5/40 til að hækka vinningsupphæðirnar og gera leikinn ennþá meira spennandi og fyrsti útdráttardagurinn í Lottó 5/40 var 17. maí.

Íslensk getspá hefur alla tíð átt mjög gott samstarf við önnur norræn lottó- og getraunafyrirtæki. Má í því sambandi geta þess að Íslensk getspá tók, ásamt öðrum Norðurlöndum, þátt í stofnun Víkingalottós sem hóf göngu sína 1993. Í því er dregið á miðvikudögum og eru vinningsupphæðir hærri en í nokkru öðru happdrætti hér á landi. Víkingalottóið hefur gengið ágætlega á Íslandi, þátttaka er stöðug og stórir vinningar hafa fallið íslenskum lottóspilurum í skaut einu sinni á ári að meðaltali frá upphafi. Samstarfið við hinar Norðurlandaþjóðirnar hefur gengið mjög vel en fulltrúar fyrirtækjanna sem að því standa hittast reglulega á fundum og ræða ýmis mál sem tengjast stjórnun, markaðsmálum, tækniþróun, og fleiru.

EuroJackpot bættist við leikjaflóruna í febrúar 2013 þar sem Ísland ásamt 15 öðrum Evrópulöndum tekur þátt. Til mikils er að vinna en lágmarksvinningsupphæð í fyrsta vinningsflokki er 10 milljónir evra í hvert skipti sem dregið er út.  Viljirðu fá nánari upplýsingar um starfsemi Íslenskrar getspár getur þú haft samband í síma 580 2500 eða sent okkur línu á netfangið: getspa@getspa.is