Um okkur » 104 milljónir króna í vinning á Enska getraunaseðilinn
Hæsti vinningur í getraunum frá upphafi.
Íslenskur tippari vann 104 milljónir króna þegar hann fékk 13 rétta á Enska getraunaseðilinn í gær og er þetta hæsti vinningur sem unnist hefur hjá Íslenskum getraunum frá upphafi.
Síðasti leikurinn á getraunaseðlinum var viðureign Man. Utd. og Leicester og áður en sá leikur fór fram var ljóst að tipparinn myndi fá 13 rétta ef leikurinn færi jafntefli og 104 milljónir króna í vinning. Sigur Leicester myndi líka þýða 13 rétta og vinning upp á 65 milljónir króna. Sigur Man. Utd. þýddi hinsvegar að tipparinn fengi aðeins 12 rétta og ríflega 200.000 krónur í sinn hlut. Það lá því ljóst fyrir með hvoru liðinu tipparinn hélt. Úrslit leiksins voru jafntefli 1-1 og tipparinn 104 milljón krónum ríkari.
Tipparinn, sem er búsettur í Kópavogi, tvítryggði átta leiki, þrítryggði einn leik og 4 leikir voru með einu merki og kostaði getraunaseðillinn 10.752 krónur.