Karlmaður á besta aldri var einn með allar tölur réttar í Lottó um síðustu helgi. Hann keypti miðann í Happahúsinu í Kringlunni samkvæmt vana sem tryggði honum rétt tæpar 10 skattfrjálsar milljónir. Vinningshafinn var auðvitað himinlifandi en þó hógværðin ein þegar hann gaf sig fram á skrifstofu Íslenskrar getspár í dag og sagðist mögulega endurnýja bílinn á nýju ári, annað væri þó alveg óráðið en vinningurinn væri að sjálfsögðu mjög svo kærkomin sérstaklega svona síðustu helgi fyrir jól.
Þessi heppni bætir manninum í hóp þeirra óvenju mörgu sem orðið hafa milljónamæringar með því að spila í Lottó síðustu vikurnar fyrir jól en alls hafa sex manns verið með fyrsta vinning síðan 30. nóvember sl. Svo munu að lágmarki 28 milljónamæringar bætast við laugardaginn 28. desember þegar dregið verður í Milljólaleiknum.
Við óskum vinningshafanum innilega til hamingju og þökkum um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.